3.1.2010 | 20:35
ÓLAFUR RAGNAR ... "Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar"
Kæri Ólafur,
Fleyg orð Vésteins Vésteinssonar úr Gíslasögu Súrssonar um það, að of seint sé nú að snúa við, eiga aldrei betur við en nú, þegar þú hefur það í hendi þér, hvort ICESAVE málinu verður vísað til þeirra sem valdið hafa, íslensku þjóðarinnar.
Við sem þekkjum þig Ólafur og vorum þér samferða heima á Þingeyri, þekkjum vel rætur þínar. Ólafur Hjartar afi þinn var einstakur heiðursmaður á allan hátt, traustur, orðheldinn og samviskusamur. Þá var Sigga Egils, amma þín, kvenskörungur, með ansi ákveðnar skoðanir sem hún lét alla heyra sem vildu.
Nú brýni ég þig Ólafur, að taka á málinu af þeirri samviskusemi sem nafni þinn og afi hefði gert og þeim skörungsskap sem amma þín hafði og að þú vísir málinu til þjóðarinnar. Með því sýnir þú, að þú ert trúr þeim rótum sem þú ert sprottinn af.
Enn þakka ég þér það, að hafa passað mig sem kornabarn og keyrt mig í barnavagninum um göturnar heima á Þingeyri.
Með kærri kveðju til Dorritar með ósk um gleðilegt ár og þökk fyrir allt liðið,
Magnús Jónasson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.1.2010 kl. 11:24 | Facebook
Athugasemdir
Góð og afar viðeigandi tilvitnun í Gíslasögu Súrssonar. Nýársávarp forsetans var eitt það allrabesta sem ég hef heyrt. Það hefur verið illa haldið á þessu máli og Ólafur einn getur einn megnað að sameina þjóðina.
Sigurður Þórðarson, 3.1.2010 kl. 22:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.